Örlítið um LoveStar


Ég las nýlega bókina LoveStar, en ég las hana einnig skömmu eftir að hún kom út árið 2002. Það kom mér á óvart hversu vel bókin speglar tækni samtímans, birtingarmyndir hennar og samspil við samfélagið, þó oft í ýktri útgáfu. Nú 15 árum eftir útgáfu bókarinnar virðist hún standa tímans tönn, en bókin er skrifuð fyrir tíma snjallsímans og allsráð Google og Facebook.
Maðurinn LoveStar stendur á bak við hinar miklu tækniframfarir í bókinni , en hann er mikill uppfinningamaður og frumkvöðull. Hann minnir á margan hátt á frumkvöðulinn Elon Musk (Paypal, Tesla, SpaceX ofl.). Elon og LoveStar stofna báðir fyrirtæki sem hafa það að markmiði að lækka kostnað við geimskot. Í bókinni hefur maðurinn LoveStar þróað svokallað whole-brain interface sem tengist fyrirbæri svipuðu internetinu. Þetta er ekki ósvipað því sem fyrirtækið Neurallink vinnur að í dag, en Elon Musk tilkynnti nýlega um stofnun þess - markmiðið að gera mannskepnuna þráðlausa. Báðir eru þeir LoveStar og Elon helteknir af tækninni og þróun hennar - fjölskyldulífið mætir afgangi.
Tækniframfarir í bókinni gera fólki kleyft að hafa samskipti þráðlaust sín á milli en einnig við fyrirtæki og þjónustur. Fyrirtækin hafa aðgang að skynfærum fólks, sem þau nýta til þess að koma sérsniðnum auglýsingum að rétta fólkinu á réttum tíma. Þetta speglast (auðvitað) vel í internetinu þar sem Google og Facebook ráða ríkjum og mata okkur með sérsniðnum auglýsingum sem þau byggja á upplýsingum úr einkasamtölum okkar, tölvupósti og ferðamynstri.
Tæknina geta fyrirtækin nýtt til þess að taka yfir stjórn á líkama og raddfærum fólks til að koma auglýsingum á framfæri. Til þess að fá ódýrari aðgang að tækninni getur fólk gerst svokallaður hrópari en hrópararnir gefa leyfi fyrir fjarstýringu á raddfærum sínum og stundum öðrum líkamshlutum sem fyrirtækin nýta til að koma auglýsingum á framfæri. Hafirðu keypt þér nýja skó, þá gætu þeim fylgt 5 hrós frá vegfarendum (hrópurum) svo þú verðir ánægðari með skóna. Aðrir gerðust svokallaðir njósnarar og líf þeirra snerist um að koma auglýsingum og ráðleggingum á framfæri í þágu fyrirtækjanna - vissulega gegn þóknun.
Hrópararnir og njósnararnir eiga sína birtingarmynd á samfélagsmiðlum nútímans. Hrópararnir minna mig á þá sem falbjóða like-in sín í von um að vinna nýja hrærivél eða miða í bíó. Njósnararnir minna meira á bloggarana, instagrammarana og snapchatstjörnurnar sem lauma auglýsingum inn í efnisstrauminn sinn, án þess þó að geta þess að hér sé um auglýsingu að ræða.
Dæmin eru mörg og ná yfir mörg svið. Í bókinni eru til dæmis mörg dæmi sem spegla vel ferðamannabylgjuna sem hefur riðið yfir þjóðina undanfarin ár. Andri Snær virðist skilja vel gengdarlausan framgang tækninnar. Um leið og hugmynd er komin fram er gagnslaust að spyrja sig hvort hún geri líf okkar ríkara, hugmyndin tekur völdin og klekur sig sjálf og verður að veruleika.